Færslur: 2006 Desember

13.12.2006 23:57

Reiðhöll risin á Söndum í Dýrafirði

Framkvæmdir við nýju reiðhöllina á Söndum í Dýrafirði hafa gengið vel og er nú unnið að lokafrágangi innandyra.


Framkvæmdir við nýju reiðhöllina á Söndum í Dýrafirði hafa gengið vel og er nú unnið að lokafrágangi innandyra. Það voru verktakar úr Dýrafirði, Önundarfirði, Ísafirði og Bolungarvík sem sáu um að reisa húsið. Húsið sjálft er einingahús sem framleitt er af fyrirtækinu Límtré vírnet á Flúðum, en starfsmenn fyrirtækisnins aðstoðuðu einnig við að reisa húsið. Það er hestamannafélagið Stormur sem stendur fyrir byggingu hallarinnar en félagið stofnaði síðast liðið vor einkahlutafélagið Knapaskjól ehf. í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða um eignarhald og rekstur reiðhallarinnar með það að markmiði að bæta aðstöðu til iðkunnar hestaíþrótta á Vestfjörðum.

Bæta aðstöðu til þjálfunnar, keppni, reiðkennslu og annars er varðar íslenska hestinn.
Stuðla að uppbyggingu á barna- og unglingastarfi, efla hestaíþróttina sem fjölskylduíþrótt og auka möguleika til iðkunnar annarra íþróttagreina.
Reiðhöllinn mun nýtast í tengslum við menningartengdaferðaþjónustu í Dýrafirði.
Mikill hugur er í Stormsfélögum og stefnum við að því að taka höllina í notkun um áramót.

Sandar í Dýrafirði hafa lengi verið miðstöð hestamanna á Vestfjörðum. Þar er löglegur keppnisvöllur með tveimur hringvöllum, 300 m kappreiðbraut, gott áhorfendasvæði, dómhús, tamninga- og kennslugerði og tjaldsvæði. Reiðhöllin mun bæta aðstöðu til mótshalda og styrkja Sanda enn frekar sem miðstöð hestamanna hér vestra.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í vor byggingarleyfi fyrir 800 m² reiðhöll á 6600 m² lóð á Söndum, eins og kunnugt er. Ísafjarðarbær mun leggja til fjárframlag að upphæð 6,3 milljónir króna sem skiptist þannig að styrkur vegna byggingarleyfisgjalda greiðist á árinu 2006 og eftirstöðvar greiðast á árunum 2007-2009. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mun tryggja að í fjárhagsáætlun hvers þessara ára verði gert ráð fyrir greiðslum til Storms.
Nefnd sem landbúnaðarráðherra skipaði í mars veitti hestamannafélaginu Stormi á Vestfjörðum 12 milljónir króna til byggingar reiðskemmu í Dýrafirði. Alls bárust 41 umsókn og var úthlutað styrkjum til byggingar 28 reiðhúsa víðs vegar um landið, og var heildarúthlutun upp á 330 milljónir.01.12.2006 23:56

Hrossarækt innan Storms hlýtur viðurkenningu

Vænting var valin glæsilegasti hesturinn á félagsmóti Storms s.l. sumar. Knapi Væntingar, Alexender Hrafnkelsson, tekur við viðurkenningu úr hendi Sigþórs Gunnarssonar. Vænting er í eigu hrossaræktandans á Laugarbóli í Arnarfirði.
Stóri- Ás var valið ræktunarbú Vesturlands árið 2006 á haustfundi hjá Hrossaræktarsambandi Vesturlands sem haldinn var nýlega. Ræktendur þar eru Lára Gísladóttir og Kolbeinn Magnússon. Einnig voru efstu hross í hverjum flokki verðlaunuð.
Hrossaræktandinn, Árni B. Erlingsson, á Laugarbóli í Arnarfirði, sem er félagsmaður í hestamannafélaginu Stormi á Vestfjörðum, átti þar efstu 4v. hryssuna, Vild frá Auðsholtshjáleigu, með eink: 8,12. Hann átti einnig efstu 6v. hryssuna, Ösp frá Efri Rauðalæk, með eink: 8,29. Árni stundar umfangsmikla hrossarækt á Laugarbóli og má þar augum líta margan efnilegan gæðinginn.
Hestamannafélagið Stormur er aðiliði að Hrossaræktarsambandi Vesturlands og er þessi viðurkenning gott innlegg í þá uppbyggingu sem félagsmenn Storms standa í um þessar mundir. Þar ber hæst bygging reiðhallar á mótssvæði Storms að Söndum í Dýrafirði. Markmið Storms með þeirri framkvæmd er að bæta aðstöðu til iðkunnar hestaíþrótta á Vestfjörðum, þ. e. tamninga, þjálfunnar, keppni, reiðkennslu og að efla barna og unglingastarf.
Á Íslandi er hestamennskan er sú íþróttagrein sem hefur vaxið hvað mest á undanförnum árum, enda frábær fjölskylduíþrótt. Þar sameinast ungir sem aldnir og njóta samvista við hestinn og náttúruna.
Það að ferðast á hestbaki um okkar fallegu, stórbrotnu Vestfirði, er alveg einstök tilfinning sem fáir ættu að láta framhjá sér fara.
  • 1
Flettingar í dag: 14
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 29
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 313316
Samtals gestir: 79919
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 07:44:50